Mikill vöxtur hefur verið hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Meninga á undanförnum misserum. Tólf bankar í tíu löndum hafa keypt heimilisbókhaldshugbúnað Meninga og á fyrirtækið í viðskiptum á Norðurlöndum, í Suður-Afríku, Póllandi, Rússlandi, Þýskalandi og á Spáni.

Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meninga, sagði í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið væri með stærstu makaðshlutdeild þeirra sem bjóða upp á svipaðar lausnir í Evrópu. Að sögn Georgs er áætluð velta Meninga í ár um 800 milljónir króna en árið 2012 var hún 407 milljónir króna.

Þá segir Georg í samtali við Morgunblaðið að stefnt sé að fjölga starfsmönnum úr 50 í 70 fyrir árslok. Georg segir að stefnt sé að frekari þróun fyrirtækisins á næstu árum. Meðal annars er unnið að því að greina fjárútlát viðskiptavina bankanna í þeim tilgangi að hjálpa þeim að finna tilboð og raunhæfar leiðir til að lækka heimilisútgjöldin.