Orkuveita Reykjavíkur hyggst birta ársreikning samstæðunnar fyrir síðasta ár í vikunni. Félagið tilkynnti í morgun að birtingu hafi verið frestað en til stóð að birta reikninginn í síðustu viku. Alls hefur birtingu verið frestað þrisvar sinnum en upphaflega átti að birta ársreikninginn fyrir mánuði síðan, í viku níu. Þá voru honum frestað til viku 10 og aftur til viku 12. Nú er stefnt að birtingu í viku 13, það er í yfirstandandi viku.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir að útgáfan hangi saman við áætlun um fjármögnun félagsins. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um hvort félagið sé búið að ganga frá lánasamningum eða öðrum rekstraraðgerðum. Hann sagði áætlunina á lokametrunum.

Í tilkynningu frá félaginu í dag segir að ársreikningur samstæðunnar verði birtur í viku 13 samhliða upplýsingum um aðgerðir í fjármögnun fyrirtækisins. Í fyrri tilkynningum vegna frestunar á birtingu hefur ekki verið tekið svo til orða, heldur einungis greint frá frestun.

Orkuveita Reykjavíkur leitar nú leiða til að auka lánshæfi félagsins. Fjölmiðlar hafa meðal annars greint frá hugmyndum um gjaldskrárhækkanir, frestun verkefna og niðurskurði á rekstrarkostnaði. Erfðilega hefur gengið að fjármagna félagið en vaxtaberandi skuldir þess í dag nema um 200 milljörðum króna

Í hádegisfréttum RÚV í dag kom fram að Norræni fjárfestingarbankinn, sem er helsti bakhjarl OR, telur félagið ekki vera álitlegan lántaka.