Rútufyrirtækið Gray Line býður ekki upp á beinar áætlunarferðir á milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar í sumar. Næstu mánuði verður metið hvort að það sé grundvöllur að hefja ferðir aftur næsta sumar. Seinasta ferðinni verður farin föstudaginn 30. september. Þetta segir í fréttatilkynningu frá Gray Line.

Haft er eftir Þóri Garðarssyni stjórnarformanni Gray Line að nýtingin á þessum ferðum hefur reynst mun lakari en fyrirtækið átti von á. Þó hefur fyrirtækið ekki enn misst trú á þessum ferðamöguleika, Þórir telur enn að þessi ferðamáti henti fólki norðan ákaflega vel til að komast í flug. Hann bætir einnig við að margt sé hægt að læra á þessu verkefni. Að mati Þóris, var Gray Line ekki samkeppnisfær við Strætó hvað fargjald varðar.

Rútuferðir enn hagkvæmari

Þórir bendir einnig á að ein rútuferð frá Keflavík til Akureyrar geti skilað yfir 400 ferðamönnum á viku beint út á land og á sama tíma styrki ríkið flugþróunarsjóð um 300 milljónir króna á ári til að styrkja beint flug til Akureyrar og Egilsstaða.

Þórir tekur fram að „tvær flugferðir í viku erlendis frá skila færri farþegum til Akureyrar en ein rúta sem fer á milli daglega frá Keflavíkurflugvelli. Vissulega er athugandi að kanna hvort beint flug erlendis frá geti skilað árangri. En það hefði í leiðinni verið full ástæða til að styðja við ferðavalkost Gray Line, sem er margfalt ódýrari en skilar sama eða meiri árangri.“ Þá bendir hann á tíðni flugferða til Keflavíkur máli sínu til stuðnings. „Samkvæmt upplýsingum frá Túrista.is er áætlað að í janúar næstkomandi verði 30 flugferðir á dag til Keflavíkur og næsta sumar verði þær 85 á dag. Árangursríkt og hagkvæmt sé miðað við þennan fjölda að geta boðið upp á beinar og þægilegar rútuferðir beint út á land og utan af landi.“