Markaðsfræðiprófessorinn Mark Ritson, sem harðlega hefur gagnrýnt Simon Anholt, sérfræðing í ímyndarmálum þjóða, hefur þekkst boð Samtaka auglýsenda um að koma til Íslands og halda fyrirlestur á námstefnu um stjórnun vörumerkja.  Í fyrirlestri sínum mun Mark Ritson meðal annars fjalla um aðferðafræði Simon Anholt sem hefur verið nokkuð til umræðu eftir fyrirlestur hans á Viðskiptaþingi.

Það er Friðrik Eysteinsson rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi formaður SAU sem á veg og vanda af komu Ritson hingað til lands. Friðrik segist hafa miklar efasemdir um Anholt. "Erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar um menntun og reynslu Simon Anholt.  Einhver taldi sig þó hafa komist að því að hann hefði verið poppsöngvari áður en hann fór út í að láta mæla ímynd þjóða og selja þeim ráðgjöf í framhaldinu.  Meðal gullkorna sem frá honum hafa komið eru að Ísraelar geti bætt neikvæða ímynd sína með því að hætta að deila við Palestínumenn. Um leið sé ráð fyrir Bandaríkjamenn að bæta sína með því að fá leyfi áður en þeir ráðast inn í  lönd," sagði Friðrik.

Stoppa vitleysuna

Friðrik segir að ástæðan fyrir því að hann fór að grafast fyrir um Simon Anholt var að honum fannst hann ekki trúverðugur í viðtali í Kastljósi Sjónvarpsins.  "Ég varð síðan fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð Viðskiptaráðsins, sem fékk hann til að halda erindi á Viðskiptaþingi um daginn. Þau lýstu mikilli vanþekkingu og skeytingarleysi.  Einu gilti hvort eitthvert vit væri í aðferðafræði hans og hvort 500 gestir Viðskiptaþingsins hefðu verið hafðir að fíflum. Það sem máli skipti væri að hann væri ráðgjafi ríkisstjórna og árangur virtist góður af störfum hans -- hvernig svo sem í ósköpunum Viðskiptaráðið gat staðfest slíkt.

Þegar ég sá síðan frétt í fjölmiðlum, þar sem sagði að utanríkisráðherra og menntamálaráðherra hefðu ákveðið að setja fjórar milljónir króna hvor í að styrkja íslenska menningarviðburði á erlendri grundu, í framhaldi af í úttekt Simon Anholts á ímynd Íslands, var mér nóg boðið. Ekki síst vegna þess að kenningar hans gengu út á að menning væri ekki hluti af ímynd íslenskrar þjóðar. Því hafði ég fyrir hönd Samtaka auglýsenda samband við Mark Ritson og bauð honum til Íslands til að reyna að stoppa þessa vitleysu," sagði Friðrik.