Carsten Valgreen, aðalhagfræðingur Danske bank, er heldur súr út í Íslendinga ef marka má umfjöllun um hann -- og skýrsluna hans umeildu um íslenskt efnahagslíf -- í Wall Street Journal (WSJ) um helgina.

"Ætli þeir hendi ekki í mig tómötum þegar ég mæti," mun hann hafa sagt í byrjun apríl, rétt áður en hann fór til Íslands. WSJ segir að reyndar hafi engum tómötum verið hent, en skopmyndir hafi birst af honum í blöðum. "Þeir taka þessu svo persónulega," er haft eftir Valgreen.

WSJ segir að þessi hægláti hagfræðingur sé orðinn ægilega frægur á Íslandi. Til að mynda hafi sjálfur forsætisráðherrann kallað skýrsluna hans "fáránlega".

Niðurstaða WSJ er að allt snúist þetta meira eða minna um stormasamt samband Íslands og Danmerkur í gegnum aldirnar. "Ef Þjóðverji eða Bandaríkjamaður hefði sagt þetta held ég að þetta hefði ekki orðið eins mikið mál," segir Kirsten Wolf, prófessor í skandinavískum fræðum við háskólann í Wisconsin.

WSJ telur það styðja þessa kenningu, að önnur fyrirtæki á borð við Merrill Lynch og Barclays Capital hafi sömuleiðis birt dökkar skýrslur um Ísland, án þess að sama írafárið brytist út.

Íslendingum sveið hvað mest undan því að Valgreen skyldi líkja landinu þeirra ríka við Tæland fyrir næstum áratug, segir WSJ. "Það var næstum fyndið að lesa það," er haft eftir Lúðvík Elíassyni sérfræðingi í greiningardeild Landsbankans. Blaðið bætir við: "Honum virðist samt ekki skemmt."

Lúðvík segist í viðtalinu telja að hrakspár Valgreens um samdrátt eða jafnvel kreppu gangi ekki eftir, heldur haldi hagkerfið þvert á móti áfram að vaxa.

WSJ vitnar líka í merkilega greiningu á sambandi Íslands og Danmerkur í metsölubókinni Collapse: How Societies Choose to Fail or Succeed.

Þar heldur höfundurinn, Jared Diamond, því fram að Danir hafi reynt hvað þeir gátu að innleiða alls kyns tækninýjungar á Íslandi og stuðla að framförum, til dæmis boðið hér upp á nýjar tegundir af fiskinetum og reynt að kenna nýjar aðferðir við veiðar. Íslendingar hafi hins vegar fúlsað við þessu öllu saman og gersamlega litið fram hjá þeim ávinningi sem þjóðinni stóð til boða. En seinna hafi Íslendingar náð sér á strik, annars vegar með því að opna fyrir milliríkjaviðskipti og hins vegar með því að beisla jarðgufu og vatnsorku, segir Diamond.

Í blálokin er bent á að sumir sérfræðingar hafi komist að allt annarri og vinsamlegri niðurstöðu en sá danski, til dæmis Moody's og Standard & Poor's. Lúðvík Elíasson veki enn fremur athygli á að Danske Bank viðurkenni í skýrslu sinni að hafa ekki fylgst reglulega með íslensku efnahagslífi.

Greininni lýkur á þessum orðum Lúðvíks: "Það er engin ástæða til að efast um það."