Klaus Scmidt-Hebbel, aðalhagfræðingur Efnahags- og þróunarstofnunarinnar (OECD), segir að núverandi samdráttarskeið í alþjóðahagkerfinu muni vara lengur en síðustu niðursveiflur.

Hann segir ennfremur að kraftur viðspyrnu hagvaxtar muni ráðast af því hversu fljótt stöðugleiki kemst á fjármáalmarkaði.

Þetta kemur fram í viðtali við Scmidt-Hebbel í OECD  Observer sem kemur út næstkomandi mánudag.

Í viðtalinu er haft eftir Schimdt-Hebbel að frosthörkurnar á fjármálamörkuðum gætu varað í nokkurn tíma og haft alvarleg áhrif á fjárfestingu, framleiðslu og atvinnustig. Verði þetta þróunin mun hún leiða til djúpstæðari samdrætti en ella.

Einnig ríkir óvissa um hver kostnaður björgunaraðgerða handa fjármálamörkuðum verður og hvaða áhrif hann muni hafa á einstaka ríkissjóði.

Schimdt-Hebbel segir að skilvirk beiting efnahagsstefnu geti leikið veigamikið hlutverk í að dempa áhrif stöðunnar á fjármálamörkuðum á raunhagkerfið.

Hann bætir því við að þegar hagvöxtur fari þverrandi og áhyggjur af undirliggjandi verðbólgu hverfa myndast svigrúm til vaxtalækkana auk sértækra efnahagsinnspýtinga stjórnvalda.