Aðalheiður Jónsdóttir hefur tekið við stöðu kynningarstjóra Rannís. Hún tekur við starfinu af Páli Vilhjálmssyni sem nú starfar sem kennari við Fjölbraut í Garðabæ auk þess sem hann sinnir störfum fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum.

Aðalheiður er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og stundaði nám í spænskri sögu og menningu við Háskólann í Granada og síðar BA og MA nám í enskum málvísindum og bókmenntum við Háskóla Íslands, auk þess sem hún lauk viðbótarnámi í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla 1997.

Hún er nú að ljúka MPA nám í opinberri stjórnsýslu við HÍ. Aðalheiður var framkvæmdastjóri Menntar – samstarfsvettvangs atvinnulífs og skóla 2003-2006 og sá áður um Evrópuverkefni hjá Rannís, Mennt og Rannsóknaþjónustu Háskólans.

Aðalheiður hefur einnig starfað sem fararstjóri hjá Úrval Útsýn og blaðamaður hjá Fróða.