Aðalskoðun hf. er nú að taka í notkun afar nýja skoðunarstöð fyrir ökutæki. Nýja stöðin, sem jafnframt er sú sjötta sem félagið hefur yfir að ráða á landinu, er staðsett í Skeifunni 5 í Reykjavík. Í nýju stöðinni verða tvær afkastamiklar skoðunarbrautir fyrir fólks- og sendibíla auk brautar fyrir sértækar skoðanir. Brautirnar ráða við allt frá litlum fólksbílum upp í millistærðir bíla og jeppa að því er segir í tilkynningu.

Öll hönnun stöðvarinnar miðar að því að skoðunin gangi greiðlega fyrir sig og aðstaða viðskiptavina sé sem best. Ekið er í gegnum húsnæðið til að auðvelda aðkomu og flæði bíla í gegnum stöðina.

„Þetta er stór áfangi fyrir félagið og mikilvægur þáttur í uppbyggingu þess. Nú er töluvert af óskoðuðum bílum í landinu sem afar brýnt er að komi til skoðunar hið fyrsta. Bílum hefur fjölgað mikið undanfarin ár og mikil umræða hefur verið um umferðarmannvirki og öryggi í umferðinni. Tengivögnum, svo sem fellihýsum og hjólhýsum, hefur einnig fjölgað gífurlega á stuttum tíma. Aðalskoðun vill leggja sitt af mörkum til aukins umferðaröryggis með því að bjóða upp á nýja og glæsilega skoðunarstöð sem hefur yfir að ráða fullkomnun tækjum og aðstöðu til skoðunar á ökutækjum," segir Bergur Helgason framkvæmdastjóri Aðalskoðunar hf: í tilkynningu.