Þýski bankinn Aareal Bank AG hefur fellt niður ríflega 600 milljóna kröfu sem bankinn gerði í þrotabú Baugs Group hf. og kom fram í kröfulýsingu þrotabúsins. Skiptastjóri hafði hafnað kröfunni að svo stöddu.

Um var að ræða ábyrgðakröfu sem Baugur hafði gengist undir og tengdist viðskiptum Landic. Lýstar kröfur í þrotabú Baugs námu 319 milljörðum króna.

Óhætt er að segja að þetta sé stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar. Helstu eignir Baugs eru veðsettar og óvíst hve mikið fæst upp í almennar kröfur sem eru að upphæð 166 milljarðar króna. Samkvæmt því sem komist verður næst má gera ráð fyrir að upp í almennar kröfur endurheimtist á milli 7 og 8 milljarðar króna.