AB Industrivarden í Svíþjóð seldi í dag 19,5% af hlutafé Össurar sem jafngildir 75 milljónum hluta. Kaupendur eru William Demant Invest A/S í Danmörku, Eyrir Invest ehf. og Vik Investment Holding S.a.r.l, eignarhaldsfélag í eigu Jóns Sigurðssonar forstjóra Össurar.

Eftir þessi viðskipti er William Demant Invest A/S stærsti hluthafi Össurar með 36,9% hlutafjár. Næst stærsti hluthafinn er Eyrir Invest ehf. með 14,6% hlut. Eyrir er að stærstum hluta í eigu feðganna Þórðar Magnússonar og Árna Odds Þórðarsonar. Þriðji stærsti hluthafinn með óbreyttan hlut er Mallard Holding S.a.r.l. eignarhaldsfélag í eigu Össruar Kristinssonar, stofnanda Össurar og fjölskyldu hans. Fjórði stærsti hluthafinn er Vik Investment Holding með 6,4% hlut.

Að sögn Niels Jacobsen, stjórnarformanns William Demant Invest A/S, eru þeir ánægðir með kaupin. ?Það býr mikill þróttur í Össuri og félagið stendur frammi fyrir víðtækum tækifærum sem við höfum fulla trú á að félagið nái að nýta sér" segir Niels í tilkynningu félagsins. William Demant Invest fjárfestir til langs tíma og það er vilji þeirra að taka þátt í því með öðrum hluthöfum að efla Össur á hlutabréfamarkaði.

Jón Sigurðsson forstjóri Össurar telur viðskiptin staðfesta þann árangur sem Össur hefur náð undanfarin ár sem endurspeglast í áhuga erlendra og innlendra fjárfesta á félaginu. ?Eftir áralanga markvissa uppbyggingu Össurar er tímabært að búa félagið undir næstu skref sem eru að fara á eftir enn stærri tækifærum og með stuðningi öflugra bakhjarla, auka innri vöxt og stuðla að sameiningum á þeim markaði sem Össur starfar á."

AB Industrivarden keypti 15% hlut í Össuri í maí 2002 og hefur síðan aukið hlut sinn jafnt og þétt og átti fyrir söluna 23,4% hlut. Eftir söluna á Industrivarden 3,8% í Össuri. Að sögn Bengt Kjell framkvæmdastjóra hjá Industrivarden hefur fjárfestingin í Össuri skilað félaginu mjög góðri ávöxtun þessi rúmlega þrjú ár sem þeir hafa verið hluthafar. ?Við vorum fyrstir erlendra fjárfesta til að koma auga á Össur sem góðan fjárfestingakost. Við höfum sett mark okkar á félagið sem hefur vaxið gríðarlega og náð góðum árangri"