Sænski vörubílaframleiðandinn AB Volvo, sem jafnframt er einn af stærstu vörubílaframleiðendum heims, tilkynnti í morgun að félagið hygðist segja upp 1.543 starfsmönnum vegna minnkandi eftirspurnar.

Félagið hefur þegar sagt upp nokkuð þúsund manns til að mæta minnkandi sölu á vörubifreiðum. Um 72 þúsund manns starfa nú hjá Volvo í 25 ríkjum.

„Vegna mikils sölusamdráttar síðustu misseri neyðist Volvo Group til að segja upp starfsmönnum í vörubílaframleiðslu félagsins í Svíþjóð,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Rétt er að taka fram að AB Volvo framleiðir ekki fólksbifreiðina Volvo. Sá partur félagsins var seldur bandaríska bílaframleiðandanum Ford árið 1999.