*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 25. apríl 2017 08:07

Ábataskipting hvati til landnýtingar

Fjármálaráðuneytið segir óháða matsmenn hafa metið söluverð Vífilstaðalandsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ríkið fær 60% af söluverði lóða á nýju landi á Vífilsstöðum, utan hefðbundinna gatnagerðargjalda, en Garðabær fær 40%. 

Bærinn þarf auk þess að standa undir öllum kostnaði við aðal- og deiliskipulag, kostnað við sölu og úthlutun lóða og öllum öðrum kostnaði við að koma landinu í not segir í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Eins Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur verið nokkur umræða um söluna sem og tímasetningu hennar en í tilkynningunni segir að Garðabær hafi um langt skeið átt í viðræðum við ráðuneytið um kaupin sem hafi verið endurnýjaðar á síðasta ári.

Óháðir matsmenn og aukinn hvati til nýtingar

Segir þar jafnframt að oft hafi reynst erfitt að ákvarða verðmæti slíkra landsvæða meðal annars vegna þess skipulags sem á þeim sé fyrir, svo því hafi ábataskipting verið tilgreind í samningnum verði nýtingin aukin umfram fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi. 

Sé það gert til að búa til sameiginlega hvata til að auka hagkvæmni landnýtingar en að baki verðmati landsins voru fengnir tveir óháðir og sérhæfðir matsmenn.

Voru það þeir Stefán Gunnar Thors, sviðstjóri Umhverfis og skipulags hjá VSÓ Ráðgjöf sem var tilnefndur af ríkinu og Jón Guðmundsson, löggiltur fasteignasali hjá Fasteignamarkaðnum ehf. sem var tilnefndur af Garðabæ.