Á aðalfundi undirbúningsfélags fyrir Vaðlaheiðargöng kom fram að skýrsla sem unnin var af RHA leiðir í ljós að þjóðhagslegur heildarábati af jarðgangagerðinni er um 1,2 milljarðar króna, þ.e. ábatinn er á núvirði tæpum 1,2 milljörðum kr. hærri en kostnaðurinn við framkvæmdina.

Einnig kom fram að undirbúningsfélagið, Greið leið, hefur unnið kynningarskýrslu um jarðgöngin og vegtengingar við gangamunnana á Svalbarðsströnd og í Fnjóskadal og er hún nú til skoðunar í Skipulagsstofnun. Beðið er umsagna nokkurra aðila um skýrsluna og í framhaldinu mun Skipulagsstofnun taka afstöðu til þess hvort jarðgangagerðin þarf að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA og stjórnarmaður í Greiðri leið segir að undirbúningur vegna framkvæmdarinnar hafi gengið vel og að næsta skref sé að þrýsta á að Vaðlaheiðagöng verði sett á vegaáætlun enda sé það forsenda þess að framkvæmdir geti hafist.