Óttar Guðjónsson, hagfræðingur, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann ber saman þjóðhagslegan ábata af því að heimila sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum við byggingu Vaðlaheiðarganga.

Óttar Guðjónsson.
Óttar Guðjónsson.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Í greininni bendir hann á að stærsti þjóðhagslegi ábatinn við byggingu Vaðlaheiðarganga sé tímasparnaður við ferðir eftir að göngin séu komin í gagnið. Ber hann þannig saman ferðir á árinu 2013 í gegnum Víkurskarð annars vegar (420.000 ferðir) og í ÁTVR hins vegar (4.300.000 ferðir). Hlutfallið sem sparast í hvoru tilviki fyrir sig er 90%.

Tímasparnaður á ferð með byggingu Vaðlaheiðarganga, þar sem gert er ráð fyrir tveimur farþegum, yrði 11 mínútur, en hagfræðingurinn gefur sér að hann sé 15 mínútur við frjálsa sölu léttvíns og bjórs. Sparist þannig 138.600 klukkustundir á ári með byggingu Vaðlaheiðarganga en 967.500 klukkustundir með því að heimila sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum.

Segir hagfræðingurinn að miðað við þessar forsendur sé þjóðhagslegur sparnaður við að leyfa sölu léttvíns og bjórs við hlið annarrar drykkjarvöru í matvöruverslunum sjöfaldur þeim þjóðhagslega ábata sem vænst sé af byggingu Vaðlaheiðarganga.