Svissnesk/sænska stórfyrirtækið ABB rak í gær forstjóra félagsins, Fred Kindle, eftir óásættanlegan ágreining um stjórnunarstefnu fyrirtækisins. Í Vegvísi Landsbankans er haft eftir stjórnarformanni ABB að stjórnin væri mjög þakklát Kindle fyrir gott starf síðustu þrjú árin en fyrirtækið hefur stækkað mikið og styrkst undir hans stjórn. Fjármálastjórinn Michel Demaré mun gegna stöðunni þar til arftaki Kindle finnst.

Hluti uppgjörs birt

Auk fréttatilkynningu um uppsögn forstjórans gaf félagið upp helstu tölur úr ársreikningi sem birtist í heild sinni í dag. Hagnaður fjórða ársfjórðungs 2008 var 1,8 milljarða Bandaríkjadalir en meðalspá markaðsaðila gerði ráð fyrir 1,1 milljarði Bandaríkjadölum. Hagnaðurinn er því mjög mikill en skýrist að miklu leyti af óreglulegri sölu, þar sem fyrirtækið Lummus var selt úr fyrirtækinu með 530 milljónir Bandaríkjadala hagnaði. Einnig var frestun á sköttum um 475 milljónir Bandaríkjadali. Án þessara tveggja óreglulegu þátta var hagnaður undir spám markaðsaðila. Arðgreiðslur voru í takt við áætlanir en félagið tilkynnti að það ætli að kaupa eigin bréf fyrir um 2 milljarða Bandaríjadali á árinu.

Hlutabréf í ABB lækkuðu í dag um 6,21% í sænsku kauphöllinni og stóð lokagildi bréfanna í 151 SEK á hlut við lokun markaða í gær samkvæmt því sem segir í Vegvísi Landsbankans.