Tyrkneski utanríkisráðherrann, Abdullah Gul, var í gær kjörinn forseti af tyrkneska þinginu í þriðju umferð kosninganna. Til þess að ná kosningu þurfti Gul að fá einfaldan meirihluta þeirra 550 fulltrúa sem sæti eiga á þingi, en hann hlaut samtals 339 atkvæði.

Gul var tilnefndur í forsetaembætti af AKP-stjórnarflokknum sem hefur mikinn meirihluta á þingi. Með sigrinum verður hann fyrsti þjóðhöfðingi tyrkneska ríkisins sem hefur pólitískar rætur í íslamskri hugmyndafræði.

Mikil spenna hefur ríkt síðustu mánuði í Tyrklandi milli AKP-flokksins og hinna veraldlegu afla í landinu og á mánudaginn sagði Yasar Buyukanit, yfirhershöfðingi tyrkneska hersins, að verið væri að grafa undan hinum veraldlegu stoðum ríkisins. Ekki fór á milli mála að orðunum var beint að forsetaframboði Gul.