Shinzo Abe forsætisráðherra Japans og Frjálslyndi lýðræðisflokkur hans hefur tryggt sér, ásamt Komeito litlum búddískum samstarfsflokki sínum 312 þingsæti á japanska þinginu af 465. Það tryggir honum tvo þriðju meirihluta sem gerir honum kleift að keyra í gegn lög á þinginu án vandræða.

Helsti stjórnarandstöðuflokkurinn á japanska þinginu, Lýðræðisflokkurinn, hafði klofnað skömmu áður en forsætisráðherrann leysti upp þingið og boðaði til nýrra kosninga, í annars vegar Stjórnarskrárlýðræðisflokkinn og hins vegar Vonarflokkinn.

Fyrrnefndi flokkurinn, í bandalagi við kommúnista og sósíaldemókrataflokkana í landinu héldu úti sameiginlegri stefnu gegn hugmyndum Abe um breytingar á stjórnarskránni.

Vill breyta stjórnarskrá sem hindrar uppbyggingu öflugra varna

Kosningarnar, sem haldnar voru í gær, eru líklegar til að tryggja honum áframhaldandi stöðu leiðtoga flokksins og þar með tækifærið til að sannfæra þjóðina um langtímamarkmið sitt um að breyta stjórnarskránni sem takmarkar mjög getu ríkisins til að byggja upp öflugan her.

Með sigrinum hefur hann jafnframt tryggt sér endurnýjað umboð eftir röð hneykslismála frá því í sumar þegar stuðningur við hann féll niður í 30% samkvæmt skoðanakönnunum að því er fram kemur í frétt ABC .

Abe hefur löngum staðið fyrir því að reyna að blása lífi í japanska hagkerfið og stöðva viðvarandi verðhjöðnun í landinu með miklum ríkisútgjöldum og öðrum ríkisaðgerðum.