Þingnefnd sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþings um bankahrunið hefur ákveðið að senda ábendingu til embættis ríkissaksóknara um málefni þeirra embættismanna sem rannsóknarnefndin telur að hafa sýnt af sér vanrækslu í störfum sínum í aðdraganda hruns bankanna. Þeir sem um ræðir eru Davíð Oddsson, sem var formaður bankastjórnar Seðlabankans, Jónas Fr. Jónsson, sem var forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og síðan Ingimundur Friðriksson og Eiríkur Guðnason sem sátu með Davíð í stjórn Seðlabankans.

Þingmannanefndin hefur það hlutverk að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og taka ákvörðun um viðbrögð við henni á vettvangi Alþingis. Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, er formaður nefndarinnar.