Fjármálaráðuneytið telur ábendingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um frestun skattalækkana ekki raunhæfa. Þetta kemur fram í nýju vefriti ráðuneytisins. Þar er bent á að breytingar á skattkerfinu urðu að lögum á síðasta ári og koma að fullu til framkvæmda á næstu árum. Í viðræðum við sjóðinn var bent á að jafnvel þó að skattalækkunin hafi áhrif til að auka eftirspurn, þá hefur hún jafnframt hvetjandi áhrif á vinnuframboð sem dregur úr spennu á vinnumarkaði.

Að mati ráðuneytisins gætu auknar ráðstöfunartekjur stuðlað að allt að átta hundruð nýjum ársverkum í ár og öðru eins á næsta ári. Þessu til stuðnings var bent á rannsóknir OECD sem sýna að áhrif skattalækkana á vinnuframboð eru hvað mest þegar eftirspurn eftir vinnuafli fer vaxandi. Þetta á einnig við þar sem atvinnuleysi er lítið vegna aukinnar atvinnuþátttöku.

Sendinefndinni, sem áður hafði gert útreikninga á áhrifum skattalækkana á efnahagslífið þar sem ekki var sérstaklega tekið tillit til vinnuframboðsáhrifa, reyndist ekki unnt að meta slík áhrif áður en álitinu var skilað. Í ábendingu sendinefndarinnar felst því minni tiltrú á sveigjanleika efnahagslífsins við þessar aðstæður.

Að auki eru tekjur ríkissjóðs undir áhrifum af hagsveiflunni. Í uppsveiflu geta
tekjur orðið meiri en áætlað er, en að sama skapi minni í niðursveiflu. Tengist þetta m.a. því að aðlögun hagkerfisins undanfarin ár hefur verið hraðari en búist var við. Óvæntur tekjuauki ríkissjóðs í uppsveiflu hefur því aðhaldsáhrif umfram það sem ætlað var. Því er líklegt að aðhaldsstig ríkisfjármála í ár verði meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Jafnframt er það mat ráðuneytisins að framleiðsluspennan verði minni en í síðustu uppsveiflu segir í vefritinu.

Skattalækkanirnar eru því að mati ráðuneytisins tiltölulega vel tímasettar.
Við þessar aðstæður er samt mikilvægt að áfram verði haldið aftur af vexti
samneyslunnar í samræmi við langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar og að
svigrúm fyrir aukið aðhald verði skoðað vandlega í næstu fjárlögum ef framvindan gefur ástæðu til að bregðast við meiri spennu en nú er gert ráð fyrir.