Kaupsýslumaðurinn Ólafur Ólafsson á nú í deilum við slitastjórn Kaupþings um gjaldeyrisskiptasamninga upp á 115 milljarða króna sem gerðir voru við hinn fallna banka skömmu fyrir hrun og átti að gera upp 14. október 2008, nokkrum dögum eftir að bankinn féll.

Ólafur er fæddur árið 1957 og sleit barnsskónum á Blönduósi og í Borgarnesi þar sem faðir hans var kaupfélagsstjóri. Viðskiptasaga hans hófst strax í menntaskóla en þá fór hann um sveitir landsins á sumrin og keypti lax af bændum og seldi á markaði í Bretlandi og á veturna keypti hann ullarvörur af hinum ýmsu prjónastofum og seldi til Bretlands. Þessi viðskipti leiddu til þess að Ólafur stofnaði fyrirtækið Icewear sem fékkst við hönnun, framleiðslu og útflutning á ullarvörum. Hann rak fyrirtækið með námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands en seldi það um vorið 1984 þegar að námi lauk. Næstu árin starfaði Ólafur í ullariðnaðinum í Frakklandi og Bandaríkjunum en kom til Íslands árið 1991 til að taka við erfiðum rekstri Álafoss.

Árið 1993 varð Ólafur forstjóri Samskipa en fyrirtækið var þá í gjörgæslu Landsbanka Íslands. Því starfi gegndi hann allt til ársins 2003 þegar hann varð starfandi stjórnarformaður félagsins. Ólafur, sem oft er kenndur við Samskip, hefur verið viðriðinn félagið alla tíð síðan og er enn stjórnarformaður Samskip Holding BV.

Á þessum árum byggði Ólafur félagið markvisst upp og stækkaði það umtalsvert undir stjórn hans. Sömuleiðis byggði Ólafur markvisst upp eignarhlut sinn í Samskipum og árið 2001 seldi hann hluta eignar sinnar til Olíufélagsins og eignaðist um leið hlut í félaginu.

Ólafur var einn af lykilmönnum S-hópsins sem árið 2003 eignaðist Búnaðarbankann og sameinaði hann síðan Kaupþingi. Hann eignaðist svo stóran hlut í hinum sameinaða banka og var í hópi stærstu hluthafa bankans, í gegnum eignarhaldsfélög sín Kjalar og Eglu, uns bankakerfið hrundi haustið 2008. Hann hefur verið atkvæðamikill í stjórnum þeirra félaga sem á árum áður tengdust SÍS og síðar smokkfisknum svokallaða; sem dæmi má nefna SÍF, sem síðar varð Alfesca en þá var Kjalar stærsti hluthafi SÍF.

Ólafur var á góðærisskeiðinu fram að hruni mjög áberandi í íslensku viðskiptalífi og ekki síður í samfélaginu. Þegar hann varð fimmtugur, árið 2007, hélt hann m.a. upp á afmælið með því að stofna styrktarsjóð til hjálpar fátækum börnum í Afríku.

Um Ólaf
»» 1984 Lýkur námi í Viðskiptafræði
»» 1991 Tekur við rekstri Álafoss
»» 1993 Verður forstjóri Samskipa
»» 2001 Selur hlut í Samskipum til Olíufélagsins og eignast hlut í Olíufélaginu í staðinn
»» 2003 Tekur þátt í kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum, lætur af starfi forstjóra Samskipa og verður starfandi stjórnarformaður, tekur við formennsku í stjórn SÍF
»» 2008 Hefur milligöngu um kaup bróður emírsins af Katar á hlut í Kaupþingi
»» 2010 Heldur yfirráðum yfir Samskipu

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. fimmtudag.