Ásett verð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkar hraðar en kaupverðið sjálft, 17% einstaklinga, 18 ára eða eldri eru á leigumarkaði og flestir telja líkur á að vera þar áfram næstu mánuði og óverðtryggð lán eru um 94% af hreinum nýjum íbúðalánum í október. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Fermetraverð nýbyggina hækkar áberandi mikið

Vísitala ásetts verðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 7,2% undanfarið ár á sama tíma og vísitala íbúðaverðs hefur hækkað um 4,1%. Ásett fermetraverð nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað áberandi mikið frá því í október í fyrra eða um 17%.

Nýjar íbúðir sem settar eru á sölu eru minni nú en áður sem getur skýrt það að hluta hvers vegna fermetraverð í nýbyggingum hefur hækkað svona hratt.

Flestir vilja eigin húsnæði

Samkvæmt nýjustu könnun Íbúðalánasjóðs telja hlutfallslega jafn margir landsmenn að þeir verði á leigumarkaði eftir hálft ár og voru þar í september eða 17% einstaklinga 18 ára og eldri.

Flestir leigjendur, eða 86%, myndu þó fremur velja að búa í eigin húsnæði en vera á leigumarkaði ef nægjanlegt framboð væri af hvoru tveggja.

Aukning í óverðtryggðum íbúðalánum

Nýjustu tölur yfir ný íbúðalán heimilanna sýna mikla aukningu í óverðtryggðum lánum á nýliðnum haustmánuðum.

Í októbermánuði námu ný íbúðalán, að frádregnum umfram- og uppgreiðslum eldri lána, alls um 14,3 milljörðum króna en þar af voru óverðtryggð lán að fjárhæð 13,4 milljörðum króna.

Óverðtryggð lán voru því um 94% af hreinum nýjum íbúðalánum fjármálastofnana til heimilanna í október.