Talsmaður fjármálafyrirtækisins ABN Amro hefur tilkynnt að samrunaviðræður við Barclays PLC verði framlengdar til föstudags og að þeim miði vel áfram, en þeim átti að ljúka í dag. Talsmaðurinn sagði að viðræðurnar stefndu að sameiningu fyrirtækjanna sem myndi skapa meiri arð fyrir hluthafa þeirra beggja og að árangur hafi náðst í að koma til móts við markmið beggja fyrirtækja. Engin vissa væri þó um hvort viðræðurnar muni leiða til samruna, né í hvaða formi hann yrði.

Fyrirtækið minntist hins vegar ekkert á þær þreifingar sem áttu sér stað síðastliðin föstudag þegar nokkrir bankar tilkynntu stjórnendum ABN um áhuga sinn á hugsanlegum samrunaviðræðum. Fyrirtækjahópurinn samanstóð af Royal Bank of Scotland (RBS), Fortis NV og Banco Santander. Heimildarmenn Dow Jones fréttastofunnar sem þekkja vel til framgang þess máls telja að ef af samrunanum verður sé líklegt að starfsemi ABN verði skipt upp og RBS taki yfir bandaríska smásölubankann LaSalle og auk þess heildsölubankastarfsemi ABN í London. Eignir ABN í Brasilíu og Ítalíu færu til Santander, á meðan Fortis tæki yfir smásölustarfsemi ABN í Hollandi.