Stjórnendur hollenska bankans ABN Amro greindu frá því í gær að þeir hefðu óskað eftir því að hitta forsvarsmenn fyrirtækjahópsins sem samanstendur af Royal Bank of Scotland (RBS), Santander og Fortis og funda um yfirtökutilboð þeirra í bankann. Fyrr um daginn hafði RBS - sem fer fyrir hópnum - tilkynnt að þeir væru tilbúnir að greiða 39 evrur á hlut, sem myndi slá út 67 milljarða evra tilboð Barclays sem ABN hafði samþykkt á mánudaginn.

Í því samkomulagi var einnig gert ráð fyrir því að bandaríski smásölubankinn LaSalle sem er í eigu ABN Amro yrði seldur fyrir 21 milljarð Bandaríkjadala til Bank of America. Sú ákvörðun fór mjög fyrir brjóstið á framkvæmdastjóra RBS. Fyrirtækjahópurinn sagði hins vegar að sitt tilboð væri 13% hærra heldur en Barclays. Yfirtakan yrði fjármögnuð að 70% hluta með peningum og afgangurinn með hlutabréfum í Royal Bank of Scotland.