ABN Amro hefur gefið út nýja greiningu á Actavis sem það segir vera eitt áhugaverðasta fyrirtækið í sínum geira í heiminum. ABN Amro mælir með kaupum í félaginu og segir gengið eiga að vera 73 en gengið bréfa Actavis er nú 66,8. Halldór Kristmannsson, upplýsingafulltrúi Actavis, segir fleiri greiningar hafa verið gerðar af erlendum aðilum á síðustu misserum og endurspegli það mikinn áhuga erlendra fjárfesta á félaginu þó það sé aðeins skráð á Íslandi.

"Við finnum fyrir miklum meðbyr frá erlendum fjárfestum og hafa nú þegar margir af stærstu sjóðum sem fjárfesta í lyfjaiðnaði keypt hluti í Actavis. Sýnileikinn er þó enn afar lítill enda er vanþekking á íslenskum markaði erlendis mikil og hefur það hamlandi áhrif á stækkun fyrirtækisins. Þó teljum við að með nýjum kauphallaraðilum og samruna við OMEX, muni þetta breytast til hins betra." Þá segir Halldór að von sé á fleiri stórum erlendum greiningaraðilum sem munu gefa úr greiningar á félaginu á næstu misserum.