Hollenski bankinn ABN Amro og breski bankinn Barclays tilkynntu í gær að náðst hefði samkomulag um samruna bankanna. Um er að ræða stærsta samruna fjármálafyrirtækja í sögu Evrópu og nemur markaðsvirði hins nýja banka um 130 milljörðum evra. Ekki er þó með öllu víst að sameining bankanna gangi eftir. Stjórnendur ABN gerðu þann fyrirvara á samkomulaginu við Barclays að þeir muni halda áfram samingaviðræðum við fyrirtækjahóp sem samanstendur af Royal Bank of Scotland (RBS), Fortis NV og Banco Santander. Sumir sérfræðingar telja líklegt að RBS - sem fer fyrir hópnum - muni leggja fram hærra tilboð í ABN sem gæti leitt til verðstríðs.

Ef af sameiningu ABN Amro og Barclays verður mun hún eiga sér stað með hlutabréfaskiptum þar sem ABN er metinn á 67 milljarða evra eða 36,25 evrur á hlut. Í kjölfar samrunans mun verða til fimmti stærsti banki heimsins og sá næst stærsti í Evrópu. John Varley, núverandi framvæmdastjóri Barclays, mun stýra bankanum á meðan Arthur Martinez, stjórnarformaður ABN, mun gegna sama hlutverki í hinum nýja banka sem mun heita Barclays Pls. Hluthafar ABN verða eigendur að 48% hlut í hinum sameinaða banka á meðan hluthafar í Barclays eiga 52%.

Samkvæmt samkomulaginu sem forráðamenn bankanna gerðu með sér í gær er gert ráð fyrir því að bandaríski smásölubankinn LaSalle sem ABN á verði seldur til Bank of America fyrir 21 milljarð Bandaríkjadala. Fjárfestingarbankastarfsemi Barclays á fátt sameiginlegt með áherslum LaSalle í bankarekstri sem hefur mest umsvif í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna.

Við samrunann verður til banki með samtals 47 milljónir viðskiptavina og 220 þúsund starfsmenn. Hins vegar gera stjórnendur bankanna ráð fyrir því að störfum verði fækkað um 23.600 í kjölfar sameiningarinnar eða um 10% af heildarstarfsfjölda fyrirtækjanna. Hinn nýji banki verður breskur en höfuðstöðvar hans verða engu að síður í Hollandi.

Sérfræðingar hafa talið að rekstur Barclays og ABN Amro falli vel að hvor öðrum og mikil tækifæri séu til vaxtar fyrir hinn sameinaða banka, sérstaklega í alþjóðlegri viðskiptabankastarfsemi. Staða Barclays er sterkust á sviði sjóðsstýringar, fjárfestingabankastarfsemi og greiðslukortum, en með samrunanum við ABN myndi bankinn styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi. Hollenski bankinn rekur meðal annars einingar í Brasilíu, Suður-Afríku, Bandaríkjunum, Miðausturlöndum og Asíu.

Hlutabréf í ABN hækkuðu um 2% við opnun markaða í gær í kjölfar þess að búist er við því að fyrirtækjahópurinn sem RBS leiðir muni leggja fram hærra tilboð í ABN. Að mati sérfræðinga mun það tilboð væntanlega fela í sér að hlutafjáreigendur í ABN fengu hluti í RBS á meðan hinir bankarnir tveir myndu leggja fram reiðufé, en hins vegar er óvíst hvernig Santander og Fortis færu að því að fjármagna það.

Hærra tilboð frá RBS er aftur á móti ekki það eina sem stjórnendur Barclays þurfa að hafa áhyggjur af. Annar möguleiki á því að samruni ABN Amro og Barclays gangi ekki eftir er sá ef ekki næst að tryggja samþykki fjármálastofnana í samtals sjötíu löndum.