ABN Amro hafnaði í gær 24,5 milljarða Bandaríkjadala tilboði í bandaríska bankann LaSalle frá fyrirtækjahópnum sem Royal Bank of Scotland (RBS) leiðir. Hollenski bankinn sagði hins vegar að tilboð RBS, Fortis og Santander yrði lagt undir atkvæði hluthafa ásamt öðrum tillögum sem liggja fyrir.

Í tilkynningu sem ABN sendi frá sér í gær kemur fram að bankinn telji að tilboðið hafi ekki verið betra heldur en 21 milljarðs dollara tilboð Bank of America (BOA), sökum þess að RBS-hópurinn gerir það einnig að skilyrði að fallist verði á fyrirhugað yfirtökutilboð bankanna í ABN Amro. Fyrirtækjahópurinn var aftur á móti ekki sammála þessu mati ABN og sögðu forsvarsmenn bankanna í gær að þeir teldu að tilboð þeirra væri "töluvert betra" heldur en það sem BOA hafði lagt fram.

RBS-hópurinn er í harðri baráttu við Barclays um yfirráð í ABN og skiptir LaSalle bankinn í því samhengi miklu máli. Sala ABN á LaSalle til BOA var hluti af samkomulagi sem bankinn gerði við Barclays 23. apríl síðastliðinn. Hluthafar ABN snérust hins vegar gegn því tilboði og í síðustu viku tókst þeim að fá hollenskan dómstól til að úrskurða um að fresta bæri sölunni á LaSalle til BOA. Sérfræðingar telja að með þeirri ákvörðun dómstólsins hafi möguleikar Barclays á að yfirtaka ABN minnkað verulega.

Heimildarmenn Financial Times sem vel þekkja til málsins segja að tilboð RBS feli einnig í sér það skilyrði að bankarnir muni ekki þurfa að standa í neinum málarekstri ef yfirtakan gengur í gegn vegna LaSalle, en Bank of America kærði ABN Amro á föstudaginn og krafðist skaðabóta auk þess að sett yrði lögbann á að hægt yrði að selja LaSalle til annarra aðila.