Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu jókst umtalsvert í vikunni og er í raun úr mikið úr takt við það sem verið hefur síðustu mánuði, og jafnvel ár, á fasteignamarkaði.

Þannig nam veltan í vikunni 5.048 milljónum króna samkvæmt tölum frá Fasteignaskrá Íslands, og jókst því um 322% milli vikna en í vikunni á undan nam veltan 1.197 milljónum króna. Rétt er að taka fram að meðaltal á viku nemur, það sem af er ári, 1.277 milljónum króna.

Fjögurra vikna meðalvelta eykst verulega fyrir vikið og hækkar um tæpan milljarð króna. Þannig nemur fjögurra vikna meðalvelta nú 2.304 milljónum króna. Mest hefur fjögurra vikna meðalvelta verið tæplega 1.600 milljónir á þessu ári en það var um miðjan maí.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur nú hækkað um 103% milli ára en á sama tíma í fyrra hafði fjögurra vikna meðalvelta lækkað um 81% milli ára.

Að sama skapi hækkar tólf vikna meðalvelta verulega á milli vikna, eða um tæpar 300 milljónir króna og nemur 1.687 milljónum króna. Tólf vikna meðalvelta hefur þó dregist saman um 11% milli ára en hafði á sama tíma í fyrra dregist saman um 72% milli ára.

Ársbreyting á vikuveltu hefur aukist um 413%. Rétt er þó að hafa í huga að velta á fasteignamarkaði getur sveiflast nokkuð milli vikna og því er réttara að skoða fleiri vikur saman líkt og gert er hér að ofan.

Til gamans má skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði. Hún er í dag 1.243 milljónir króna, og hækkar nú í fyrsta skipti í 40 vikur, samanborið við 2.436 milljónir króna á sama tíma í fyrra og hefur því lækkað um 49% milli ára.

Í þessari viku:

Alls var 47 kaupsamningum þinglýst í vikunni, líkt og í síðustu viku. Alls hefur 38 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku á þessu ári.

Meðalupphæð á hvern samning hækkar þó verulega á milli vikna og útskýrir þá aukningu á meðalveltu sem áður var fjallað um. Þannig nemur meðalvelta á hvern samning í vikunni 107,4 milljónum króna, samanborið við 25,5 milljónir króna í vikunni á undan. Meðalupphæð á hvern samning frá áramótum er nú 33,5 milljónir króna sem sýnir að nýliðin vika er vægast sagt óvenjuleg.

Á vef Fasteignaskrár Íslands er vakin athygli á því að meðalupphæð kaupsamnings er ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun. Þetta er vegna þess að hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar, misgamlar o.s.frv.