„Ég hef áhyggjur af því að það sé spekileki frá Íslandi,” segir Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir, yfirframleiðandi tölvuleiksins Star Wars: Battlefront fyrir sænska tölvuleikjafyrirtækið DICE.

Sigurlína flutti erindi á Menntadegi atvinnulífsins 2016, sem Samtök atvinnulífsins héldu hátíðlegan í síðustu viku. Þar ræddi hún meðal annars um gengi tæknisprota á Íslandi, og umhverfið sem er fyrir frumkvöðla hérlendis.

Henni finnst sem margir í hennar bransa - tölvuleikjaframleiðslu - séu að flytja til útlanda. Það framkalli ákveðinn atgervisflótta að viðhalda gjaldeyrishöftunum tíðræddu, sem lögð voru á í kjölfar efnahagshrunsins.

„Fólk sem byrjar að skapa sér frama á Íslandi og vil byggja upp fyrirtæki kemst síðan að því að umhverfið er hagfelldara annars staðar,” segir Sigurlína. „Þar er meiri þekking, og meira fjármagn.”

Sigurlína sagði þá einnig að henni fyndist tillaga Þorsteins Sæmundssonar þingmanns Framsóknarflokksins varðandi byggingu áburðarverksmiðju ríkisins minna helst á slæman brandara. Viðskiptablaðið hefur fjallað áður um tillögu Þorsteins.

„Þegar það er verið að tala um að búa til áburðarverksmiðju til þess að laða Íslendinga heim og búa til fleiri störf - ég er iðnaðarverkfræðingur og hef alltaf haft áhuga á stóriðju - en mér finnst þetta bara vera tiltölulega slæmur brandari,” sagði Sigurlína í erindi sínu.