Eins og fram hefur komið hefur ábyrgð Eimskipafélagsins í tengslum við söluna á Air Atlanta Icelandic (AAI) og flugvélaeignarhaldsfélaginu Northern Lights Leasing til stjórnenda AAI í lok síðasta árs verið lækkuð úr 285 í 185 milljónir dala, jafngildi nær 17,5 milljarða íslenskra króna.

Á móti þessari ábyrgð er Eimskipafélagið með veð í öllum vélum Northern Lights Leasing (NLL).

Félagið á nú átta Boeing 747 breiðþotur og 2 Airbus 300- 600 vélar en 13 breiðþotur voru í flugflota NLL þegar eigendaskiptin urðu sem táknar að félagið hefur þá væntanlega selt þrjár vélar.

Fram hefur komið af hálfu stjórnenda AAI að áfram verði leitað að tækifærum til að selja vélar til að minnka enn frekar ábyrgðir Eimskipafélagsins en hún gildir fram í október á næsta ár eða í rúmt ár til viðbótar.

Ljóst er þó að markaðurinn fyrir sölu á þotum er erfiður um þessar mundir, mjög erfiður segja sumir þannig þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnenda AAI er líklega erfitt er að spá fyrir um það hvenær Eimskip losnar undan ábyrgðinni.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .