*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Fjölmiðlapistlar 4. ágúst 2018 17:02

Ábyrgð fjölmiðla

Hún var algerlega galin fréttin, sem birt var á Stöð 2 og Vísi á laugardag, en þar var frá því greint að virðisaukaskattur skilaðu sáralitlum tekjum í ríkissjóð.

Andrés Magnússon
Rangfærslur viðskiptafræðings um virðisaukaskatt í lokaritgerð við HA vöktu mikla athygli í vikunni.

Hún var algerlega galin fréttin, sem birt var á Stöð 2 og Vísi á laugardag, en þar var frá því greint að virðisaukaskattur skilaðu sáralitlum tekjum í ríkissjóð, tímabært væri að endurskoða virðisaukaskattskerfið, enda undanþágur allt of margar og kerfið ógagnsætt. Æskilegra væri að taka upp 1,5 prósenta flatan veltuskatt, sem myndi skila hærri tekjum til ríkissjóðs en þessi smánarvirðisaukaskattur.

Allt ofangreint kom áhorfendum í opna skjöldu og þurftu þeir þó varla að vera skattasérfræðingar til þess að átta sig á því að eitthvað væri bogið við þessa frétt Elínar Margrétar Böðvarsdóttur. Fréttapunkturinn var hafður eftir nýútskrifuðum viðskiptafræðingi við Háskólann á Akureyri, en lokaverkefni hans fjallaði um nákvæmlega þessi efni. Það var ekki mikið rætt við hinn nýbakaða fræðimann, en af því, sem þó var eftir honum haft, festi ekki hönd á margt. Þó þetta: „Virðisaukaskatturinn er bókstaflega engu að skila. Tekjurnar 2011 voru 20 milljarðar og 2012 voru þær 18. Svo hafa þær reyndar farið hækkandi eftir það." Annað var mun losaralegra og ekki ýkja traustvekjandi.

Auðvitað var þetta allt á misskilningi byggt, sennilegast vegna þess að höfundur leit aðeins til útskatts og innskatts hjá ýmsum atvinnugreinum, ekki virðisaukaskattinn sem hinn endanlegi neytandi greiðir, allur almenningur, en hann er vitaskuld aðaltekjulind ríkissjóðs og stendur undir um þriðjungi af tekjum hans í ár.

Nú gegnir auðvitað nokkurri furðu að maður með skattamál að áhugamáli, fullnuma í akureyskri viðskiptafræði, skuli verða á þessi undirstöðumistök í rannsóknum sínum. Enn furðulegra er þó að leiðbeinandi hans skuli ekki hafa áttað sig á því að hér væru einhver firn á ferð, sem krefðust betri athugunar. Alveg burtséð frá því hvort hann héldi að þetta væri rétt eða rangt. Ekki þó síður í ljósi þeirra þakka ritgerðarsmiðsins honum til handa:

Leiðbeinanda mínum [...] þakka ég alveg sérstaklega fyrir að hafa aðstoðað mig og leitt mig áfram við þetta verkefni og þegar ég fór aðeins af réttri leið leiðrétti hann stefnuna jafnóðum.

Eins gott að hann bar ekki verulega af réttri leið! Þó það sé nokkuð utan umfjöllunarefnis þessa dálks, þá vekur þetta mál vitaskuld alvarlegar spurningar um akademískt umhverfi nyrðra.

Fjölmiðlavinkillinn er þó ekki síður athugunar verður. Það er með algerum ólíkindum að fréttamaðurinn hafi trúað þessu þvaðri eins og nýju neti. Jafnvel þótt fólk sé ekki vel heima í fínni punktum skattamála, þá má það vita að þessar tilteknu athugasemdir við virðisaukaskattinn, að hann sé nú bara ekki neitt neitt, eru skrýtnar eða a.m.k. ekki í neinu samræmi við umræðu um virðisaukaskatt mörg umliðin ár, fjárlagaumræðu eða pólitískar deilur um skattlagningu í vorum árlegu og endalausu kosningum.

Það væri auðvelt að benda á sumarleyfi og afgreiða þetta sem byrjendamistök, en fréttamaðurinn er enginn nýgræðingur. Og jafnvel þó svo væri, þá flýgur þessi frétt athugasemdalaust í gegnum vakthafandi fréttastjóra í góðu plássi bæði hjá Stöð 2 og Vísi. Það hlýtur að kalla á sérstaka umræðu um vinnubrögð þar á bænum.

Svo enn sé vikið að hinu sérstaka erindi og hlutverki fréttamiðla: Þeim ber að segja frá hinu fréttnæma, nýstárlega og jafnvel hinu skrýtna, sem fyrir ber í þjóðfélaginu og umheiminum. Þeim ber að staðreyna og sannreyna það, sem þar kemur fram, hafa heimildir fyrir frásögninni, skilja aukaatriðin frá aðalatriðunum og setja fram svo skipulega að hver sem er geti öðlast skilning á því.

Þeim ber líka að athuga sannleiksgildi þess sem viðmælendurnir segja, líka þótt þeir séu í nýstraujuðum fræðimannskufli. Sérstaklega þó ef um óvenjulegar skoðanir er að ræða, eins og þarna gerði, þá er sjálfsagt og rétt að leita álits annarra fræðimanna. Það þýðir ekki að þeir þurfi að fella dóm yfir því sem viðmælendur segja, en þeir þurfa þó a.m.k. að setja það í samhengi um að ekki séu allir á einu máli um það ef ástæða er til. Nú eða eins og þarna, að átta sig á því að maðurinn fór með staðlausa stafi og skjóta fréttina niður.

Það er rétt að árétta að það gengur ekki að segja bara að maðurinn hafi sagt þetta og hann beri ábyrgð á en fréttastofan ekki. Þannig virka góðir fréttamiðlar ekki. Þeir lúta ritstjórn og þar er alla daga verið að fást við fréttamat á því hvað sé stór frétt og hvað lítil. Þar þarf að sannreyna frásagnir sem annað og fréttin er að lokum á ábyrgð miðilsins, ekki viðmælendanna.

Það tengist auðvitað annarri umræðu, sem einnig kom upp í vikunni, þegar þjóðskáldið Bubbi Morthens ásamt Ríkisútvarpinu (RÚV) var dæmt til að greiða Steinari Berg Ísleifssyni 250 þúsund krónur í miskabætur fyrir ummæli, sem hann lét falla í þætti á RÚV. Ámóta dæmi hafa áður komið upp, þar sem fjölmiðlar og blaðamenn hafa verið dæmdir fyrir ummæli viðmælenda og þykir það ósanngjarnt.

En þá er aftur komið að eðli fjölmiðla. Þeim er ritstýrt og við ritun sérhverrar greinar og viðtals þurfa menn að velja hvað fram kemur og hvað ekki, stytta og snyrta. Veiti viðmælandinn ummæli, sem orkað geta tvímælis eða verra, þá þarf blaðamaðurinn, ritstjóri og/eða ábyrgðarmaður að taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig þau koma fram. Og bera ábyrgð á, einfaldlega af því að miðillinn er ekki sem hvert annað götuhorn þar sem hver ber ábyrgð á eigin orðum, heldur er hann skilvinda og gjallarhorn í senn. Það er miðillinn sem gefur orðunum annað og aukið vægi með birtingu þeirra.

Auðvitað geta verið undantekningar þar á, líkt og í viðtölum í beinni útsendingu þar sem enginn getur ráðið um orðin nema sá sem mælir þau. Eða þegar orðin -  þó þau séu gífuryrði -  eiga svo brýnt erindi við almenning að þau verði að koma fram. En þá má líka búa sérstaklega um þau, til þess að ítreka að miðillinn fallist ekki endilega á þau eða staðhæfinguna að baki þeim, og leiti um leið andstæðra sjónarmiða. Það er ábyrg fjölmiðlun.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is