Ábyrgðir ríkisins vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga jukust um 34,5 milljarða króna í fyrra. Þessi tala er fengin með því að skoða svokallaða heildarstöðu sjóðanna, þ.e. áfallnar og framtíðarskuldbindingar að frádregnum eignum og framreiknuðum iðgjöldum.

Samkvæmt upplýsingum frá LSR var heildarstaða B-hluta sjóðsins neikvæð um 373 milljarða í árslok 2011 og heildarstaða LH neikvæð um 44,3 milljarða. Samanlagt er heildarstaða þessara sjóða, sem eru báðir með beinni ríkisábyrgð, neikvæð um 417,3 milljarða króna.