„Ástæða er til þess að minna á að lögin um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi voru sett 1998, þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra.“

Þannig byrjar Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (FME) í grein á síðu embættisins í dag en þar svarar hann að nokkru leyti gagnrýni Davíðs Oddsonar, formanni bankastjórnar Seðlabankans á eftirlitskerfið í gær.

Þá segir Jón að ábyrgðin á bankahruninu hér heima fyrir sé fyrst og fremst bankanna sjálfra og stjórnenda þeirra en ekki eftirlitsstofnanna eins og FME eða Seðlabankans.

Jón segir í grein sinni að skipulag eftirlitsins var –og er – í samræmi við það sem talin er besta framkvæmd á þessu sviði í markaðshagkerfum Vesturlanda og notast við formdæmi nágrannaríkja þegar lögin urðu til.

Þá fer Jón yfir verkaskiptingu milli Seðlabankans og FME á sviði eftirlits með fjármálastarfsemi. Hann segir eftirlit Seðlabankans beinast einkum að heildaráhrifum mikilvægra þátta í hagkerfinu og nefnir sem dæmi lausafjárstýringu og gjaldeyrisáhættu.

„En það eru ekki síst þessir þættir sem koma við sögu í fjármálakreppunni sem nú herjar á landið,“ segir Jón.

„Eftirlit sem beinist að eignum og skuldum einstakra banka er á hinn bóginn á sviði FME, með talið álagspróf til þess að meta viðnámsþrótt eiginfjár þeirra gagnvart áföllum. Reynslan upp á síðkastið sýnir að þessar aðferðir hafa ekki dugað nægilega vel þegar heimskreppa á sviði fjármála skellur yfir. Helsta skýringin á því er sú að venjubundið mat á stöðu einstakra banka gengur í reynd út frá því að fjármálakerfi umheimsins virki eins og venjulega, sem því miður gildir ekki nú.“

Hér má sjá grein Jóns Sigurðssonar.