Ekki hefur verið samið um ábyrgðirnar sem féllu á Eimskip í kjölfar þess að flugfélagið XL varð gjaldþrota.

Björgólfsfeðgar tilkynntu fyrir tæpum tveimur vikum að þeir myndu fara fyrir hópi fjárfesta og lána Eimskip fyrir kröfunni og fresta gjalddaga hennar.

Hvorki talsmenn Björgólfs né Eimskips vildu tjá sig nánar um málið en samkvæmt traustum heimildum Viðskiptablaðsins hefur ekki verið gengið frá láninu.

Heimildirnar herma að áður en gengið verði frá ábyrgðunum verði fyrst reynt að semja við erlenda lánardrottna Eimskips.

Ástæðan er sögð vera sú að minni líkur séu á því að lánardrottnarnir slái af kröfum sínum ef ábyrgð feðganna liggur fyrir.

Á meðan Eimskip standi á eigin fótum eigi lánveitendurnir ekki annarra kosta völ en að semja um lánin því fari félagið á hausinn séu kröfurnar glataðar. Björgólfur hyggist því bíða átekta og ekki hlaupa undir bagga fyrr en samningar við erlendu kröfuhafana eru komnir á hreint.