Þegar Landsbankinn og Glitnir fóru í þrot féll ábyrgð á greiðslu skuldabréfa á ríkisvaldið. Nemur upphæðin 22,5 milljörðum  króna, mest vegna skuldabréfa Landsbankans, 22,1 milljarður króna. Ríkisábyrgðasjóður hefur þegar lýst kröfum í þrotabú bankanna.

Fjárheimild til Ríkisábyrgðarsjóðs að fjárhæð 3 milljarðar króna í fjárlagafrumvarpi 2011 var vegna áætlaðra greiðslna ríkissjóðs af þessum yfirteknu ábyrgðum á árinu 2010. Kristján Þór Júlíusson þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði fjármálaráðherra um málið á Alþingi.

Umrædd lán Ríkisábyrgðasjóðs eru annars vegar tilkomin vegna yfirtöku Landsbankans á skuldbindingum sem eftir voru í Landsbankanum þegar hann var hlutafjárvæddur á sínum tíma og hins vegar vegna kaupa Landsbankans á Lánasjóði landbúnaðarins.    Lánin eru tekin á árunum 1989–1998.

Lán Íslandsbanka eru vegna skulda Iðnlánasjóðs sem Fjárfestingarbanki atvinnulífsins tók yfir á sínum tíma þegar Iðnlánasjóður var settur inn í FBA. FBA sameinaðist síðar Íslandsbanka sem síðar varð Glitnir banki hf. Lánin eru tvö, tekin á árunum 1996 og 1997.