Meðal þess sem kemur fram í skráningarlýsingu Íslandsbanka eru þættir sem lúta að sölunni á Borgun. Þar kemur meðal annars fram að bankinn hafi skuldbundið sig til að ábyrgjast rúm 63% af mögulegum bótum sem Borgun gæti þurft að greiða Landsbankanum. Sem kunnugt er seldi Landsbankinn um þriðjungshlut sinn í félaginu árið 2014 en telur sig hlunnfarinn þar sem upplýsingagjöf um virði hlutar í Visa Europe hafi verið ábótavant. Dómkvaddir matsmenn í máli bankans gegn kortafyrirtækinu töldu svo vera og var það staðfest í yfirmati.

Því til viðbótar hefur bankinn tekið á sig ýmsar ábyrgðir vegna dómsmála sem höfðuð hafa verið á hendur Borgun eða eru í farvatninu. Þar má til að mynda nefna mögulegt 202 milljóna króna mál ungversks félags vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar á færsluhirðasamningi.

Endanlegt kaupverð SaltPay á Borgun var á þriðja milljarð króna. Fari öll málin á versta veg fyrir Borgun er mögulegt að þau fari langt með að þurrka út stóran hluta söluandvirðisins. Kaupverðið hefur ekki verið að fullu greitt en síðasta greiðsla er á gjalddaga í júlí.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .