„Okkur fannst í rauninni ábyrgt að sækja um greiðsluskjól á meðan óvissan er fullkomin. Í ljósi þess að maður hefur engar varnir fyrir kröfum sem geta komið aftan að manni getur úrræðið reynst vel. Til dæmis ef ekki semst um að greiða kröfu á tilteknum hraða sem fyrirtæki ráða við þá eru þau opin fyrir stefnu um gjaldþrotaskipti,“ segir Arnar Freyr Ólafsson, framkvæmdastjóri Southdoor sem sér um rekstur Hótel Hellu, Hótel Skóga og Árhús.

Félögin sóttu um fjárhagslega endurskipulagningu hvert í sínu lagi 9. september síðastliðinn. Samkvæmt frétt Vísis hafa viðskiptabönkunum þremur borist 16 umsóknir um greiðsluskjól.

„Undir venjulegum kringumstæðum ætti maður að geta greitt slíkar kröfur en ekki þegar sjóðstreymi félagsins er algjörlega skorið við nögl til þess að standa undir lágmarksrekstri. Í staðinn fyrir að vera opin fyrir þessari áhættu þá ákváðum við að nýta þau úrræði sem okkur standa til boða enda gátum við sýnt fram á að við höfðum orðið fyrir verulegum samdrætti, eins og skilmálarnir segja til um.“

Auk greiðsluskjóls hefur félagið nýtt sér hlutabótaleiðina og kom það Arnari á óvart hversu vel sú leið virkaði. „Ef allir þyrftu að ráða inn nýtt starfsfólk væru ákveðnir verkferlar og aðrir innviðir bara horfnir og þá þyrfti maður að einhverju leyti að byrja upp á nýtt,“ segir Arnar og því hafi leiðin líklegast verið hagkvæmari fyrir hagkerfið en ella.

„Ef það verður algjör óvissa með landamærin og flugleiðir til og frá landinu munum við auðvitað óska eftir áframhaldi af greiðsluskjóli,“ segir Arnar og bætir við að þar skipti mestu máli að erlendar bókanir hafi byrjað að einhverju leyti. Félagið hefur ekki séð ástæðu til að auka skuldsetningu sína og hyggst því ekki nýta lánaúrræði ríkisins.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .