Fyrirtækið ABZ - A í Reykjavík hefur sótt um lóð hjá Faxaflóahöfnum undir 120 herbergja hótel við Ægisgarð að því er kemur fram í frétt á heimasíðu Faxaflóahafna.

Þar segir að ABZ – A sækir um lóðina fyrir hönd Klaus Ortlieb/MK hotels í New York, samstarfsaðila og óstofnaðs hlutafélags á Íslandi.

Klaus Ortlieb býr í New York þar sem hann á og rekur hótel en hann kemur upprunalega frá Þýskalandi og hefur yfir 25 ára reynslu af hótelrekstri. Í hugmyndalýsingu kemur fram að hótelið eigi að vera fjórar stjörnur + og staðsetning við lifandi höfn er aðdráttarafl og skapar ímynd.

Hönnuðir viðra ýmsar hugmyndir í tengslum við hótelbygginguna, svo sem hvalasafn og lifandi sjávardýrasafn, sundlaug opin almenningi á þriðju hæð og þakrými er hugsað sem garður. Mikil áhersla er lögð á að aðlaga húsið að hafnarumhverfinu og þeirri uppbyggingu sem nú þegar er áformuð á Slippasvæðinu.

Viðbrögð hafnarstjórnar við þessari málaleitun koma fram í bókun á stjórnarfundi þann 12. desember s.l. og fer hér á eftir:

„Hafnarstjórn samþykkir að óska eftir umsögn skipulagsráðs Reykjavíkur um erindið, en ljóst er að það hefur í för með sér breytingar á deiliskipulagi Mýrargötureits. Verði sú umsögn jákvæð er fallist á að ganga til viðræðna um málið enda verði þá gerð nánari grein fyrir fjármögnun, eignaraðild og framkvæmdatíma."