Samningur alþjóðlega raftækjarisans Acer við Tölvutek um smásölu þess síðarnefnda á vörum þess fyrrnefnda fól í sér ákvæði í samræmi við þýsk lög um einskonar veð Acer í vörunum þar til þær seldust, en Landsbankinn var á sama tíma með allsherjarveð í vörubirgðum Tölvuteks fyrir sínum lánum. Deilt er um hvort ákvæði Acer standist íslensk lög.

Þann 24. júní síðastliðinn lokaði raftækjaverslunin Tölvutek dyrum sínum eftir 12 ár í rekstri. Rekstrarfélagið var tekið til gjaldþrotaskipta stuttu seinna, og svo fór að reksturinn var keyptur svo til í heilu lagi úr þrotabúinu. Verslunin var opnuð að nýju í öðru húsnæði aðeins einum og hálfum mánuði eftir að henni hafði verið lokað, og er enn opin í dag.

Í tilkynningunni um lokun var vísað til „óviðráðanlegra aðstæðna“, en heimildir Viðskiptablaðsins herma að lokun lánalínu fyrirtækisins hafi riðið því að fullu eftir langvarandi rekstrarerfiðleika, meðal annars sökum mikils leigukostnaðar í þáverandi húsnæði verslunarinnar við Hallarmúla.

Myndi gerbreyta veðrétti
Samningur Tölvuteks og Acer var nokkuð óhefðbundinn í íslensku samhengi, og útlit er fyrir að ekki fáist niðurstaða í málið nema með aðkomu dómstóla. „Það kemur þarna upp lögfræðilegt álitamál sem varðar heimild erlendra aðila til að eiga veð í lausamunum sem ætlaðir eru til endursölu hér á landi. Þjóðverjarnir telja sig hafa samið á grundvelli þýskra laga,“ sem að mati Bjarka stangast á við íslensk lög. „Það er mitt mat, en það verður spennandi að sjá hvernig dómstólar taka á þessu,“ segir Bjarki Þór Sveinsson, skiptastjóri þrotabúsins.

Vinni Acer málið segir hann það munu breyta því hvernig fjármálastofnanir líta á sinn veðrétt. „Nú var bankinn með allsherjarveð í þessum vörubirgðum. Ef Acer fær sinn rétt viðurkenndan stangast það á við aðferðafræði bankans um að hafa veðrétt í vörubirgðum. Þá munu íslenskir aðilar einhvern veginn þurfa að verja sig gagnvart því að erlendir aðilar trompi þeirra veðsetningu,“ segir Bjarki.

„Acer afhendir Tölvutek vörur og telur sig eiga þær þar til þær eru seldar. Það er það sem er í andstöðu við íslenskan viðskiptarétt að mínu mati. Vinni Acer málið fyrir dómi myndi það gerbreyta veðrétti á Íslandi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .