Vogunarsjóðstjórinn Bill Ackman fjárfesti 1,1 milljarði dala, eða sem nemur 143 milljörðum króna, í Netflix eftir að hlutabréf streymisveitunnar tóku dýfu í lok síðustu viku. Financial Times greinir frá.

Hlutabréfaverð Netflix hefur lækkað um meira en 40% frá því að það náði methæðum í október. Gengi Netflix féll um meira en 20% á föstudaginn síðasta eftir að fyrirtækið varaði við því að áskrifendum myndi ekki fjölga jafnmikið á yfirstandandi fjórðungi líkt og á fyrsta ársfjórðungi 2021.

Sjá einnig: Gengi hlutabréfa í Netflix hríðféll

Ackman byrjaði að kaupa hlutabréf Netflix á föstudaginn síðasta og er nú orðinn einn af tuttugu stærstu hluthöfum streymisveitunnar. Í bréfi til hluthafa vogunarsjóðsins Pershing Square sem hann stýrir segir Ackman að „margar af okkar bestu fjárfestingum hafa komið þegar aðrir fjárfestir, sem hugsa til skamms tíma, horfa fram hjá frábærum fyrirtækjum á ótrúlega aðlaðandi verðum til langs tíma“.

Ackman sagðist hafa verið hrifinn af Netflix vegna stærðar streymisveitunnar. Hún hafi burði til að laða að fleiri áskrifendur og rukka hærri verð að sögn Ackman. Einnig muni hið stöðuga streymi af nýjum þáttum og myndum gera Netflix kleift að keppa við aðrar streymisveitur og tryggja hærri framlegð.

Hlutabréf Netflix hafa hækkað um meira en 4% í viðskiptum fyrir opnun markaða.