Bill Ackman, sjóðstjóri og stofnandi vogunarsjóðsins Pershing Square Capital Management, segist hafa tekið skortsstöðu gegn Hong Kong dollaranum. Ackman lýsir því á Twitter að hann telji stutt í að festing gjaldmiðilsins við Bandaríkjadollar brotni.

„Festingin gengur ekki lengur upp fyrir Hong Kong og það er aðeins tímaspursmál þar til hún brotnar.“

Ackman hefur þar með bæst við hóp þekktra sjóðstjóra, sem inniheldur m.a. Geroge Soros og Kyle Bass, sem hafa tekið stöðu gegn fastgengisstefnu Hong Kong. Soros og Bass neyddust þó að lokum til að losa um skortsstöðu sína en fastgengisstefnan hefur haldið án rofs frá því að hún var innleitt fyrir fjórum áratugum, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Skortsstaðan mun skila Pershing Square ágóða ef gengi Hong Kong dollarans gagnvart Bandaríkjadollaranum fellur undir neðri mörk hins þrönga vikmarkabands fastgengisstefnunnar. Raungerist það mun það valda röskun á alþjóðamarkaði.

Ýmsir greiningaraðildar og fjárfestar telja þó ósennilegt að fastgengið brotni á næstunni sökum ríflegs gjaldeyrisforða seðlabanka Hong Kong.

„Ég sé engin merki um álag á fastgenginu,“ hefur FT eftir hagfræðingi Standarad Chartered. Hann bætti við að þrátt fyrir Hong Kong dollarinn hafi sleikt veikari mörk vikmarkanna fyrr í ár sem hafi leitt til ítrekaðra gjaldeyrisinngripa þá sé það einfaldlega hluti af hönnun fastgengisstefnunnar.