Bandaríski vogunarsjóðsstjórinn Bill Ackman er að veðja stórt á að fyrirtæki muni lenda í greiðsluvanda. Átta mánuðir eru síðan Ackman hagnaðist um 2,6 milljarða dollara, andvirði 360 milljarða króna miðað við núverandi gengi, með því að veðja á hrun á verðbréfamörkuðum.

Ackman segir að markaðir séu enn á ný orðnir of sjálfumglaðir og vanmeti áhrif heimsfaraldursins. Viðskiptin áttu sér stað sama dag og tíðindi bárust þess efnis að mögulegt bóluefni Pfizer og BioNTech hafi 90% virkni.

Í upphafi viku keypti hann tryggingu gegn vanskilum fyrirtækja til þess að verja þá stóru stöðu sem hann hefur tekið með hlutabréfamörkuðum. „Ég vona að við töpum pening á þessari tryggingu,“ sagði Ackman við Financial Times. Fram kemur að fjárfesting Ackman er tæplega þriðjungur af þeim 27 milljónum dollara sem hann fjárfesti fyrr á árinu, um átta milljónir.

Ackman er sjóðstjóri yfir Pershing Square Holdings sem er skráð í kauphöll London og í Euronext-kauphöllinni í Amsterdam, líkt og Marel. Hlutabréf Pershing hafa hækkað um ríflega helming það sem af er ári og meira en tvöfaldast frá því að þau náðu lágpunkti í mars. Markaðsvirði fyrirtækisins er um 6,5 milljarða dollara, jafngildi 895 milljarða króna.

Keypti á ný eftir fall markaða

Ackman segist vera vongóður um framþróun hagkerfisins til framtíðar. Gerir hann ráð fyrir tiltölulega kröftugri viðspyrnu en að til skamms tíma sé um að ræða mjög krefjandi tíma.

Eftir að hafa losað um skortstöðuna sem hann hagnaðist allverulega á fyrr á árinu hóf hann að kaupa hlutabréf. Hann jók stöður sjóðsins Pershing í félögum á borð við Agilent, Berkshire Hathaway, fjárfestingafélagi Warren Buffett, Hilton og Lowe‘s.

Enn fremur keypti hann hlutabréf í Starbucks sem sjóðurinn hafði selt í janúar og höfðu lækkað skarpt í millitíðinni. Auður Ackman er metinn á 2,1 milljarð dollara samkvæmt auðmannalista Forbes. Auður hans var metinn á um 1,6 milljarða í apríl á þessu ári.