Fyrsta lyf Actavis samstæðunnar framleitt á Íslandi var sent til Rússlands 3. apríl sl. Um var að ræða 9 bretti (um 2 milljónir taflna) af hjartalyfinu Lisinopril, sem fékkst skráð í Rússlandi í janúar sl.

Rússland og nálæg lönd eru stór markaður fyrir Actavis eða um fimmtán prósent af heildarsölu samstæðunnar. Vörur Actavis á svæðinu hafa nær eingöngu verið framleiddar í Búlgaríu hingað til og því markar útflutningurinn nú viss tímamót fyrir Actavis í Rússlandi.

Þessi útflutningur er að sögn Jónasar Tryggvasonar, framkvæmdastjóra Actavis í Moskvu, mikilvægur fyrir Actavis. Félagið selji nú nýrri lyf á markaðnum sem búast megi við að skili hærri framlegð. Markaðurinn sé jafnframt að breytast, krafa sé um nýrri lyf og samsetning lyfjaúrvals sé önnur. ?Þar nýtist vel styrkur samstæðunnar í formi öflugrar þróunarvinnu og breiðs vöruúrvals. Þá er Rússlandsmarkaður sá markaður sem spáð er næstmestum vexti í heiminum á næstu árum fyrir utan Kína og því góð tækifæri þar fyrir Actavis,? segir Jónas í tilkynningu frá félaginu.

Að sögn Jónasar fékkst hjartalyfið Lisinopril skráð í janúar sl. Á þessu ári er búist við að framleidd verði fleiri lyf á Íslandi og markaðssett í Rússlandi, m.a. Cetrizin, Fosinopril, Risperidon og Citalopram. Sendingin er sú fyrsta af þremur, sem ráðgerðar eru á þessu ári.

Alls starfa um 200 manns hjá Actavis í Rússlandi og nálægum löndum. Starfseminni er stýrt frá Moskvu en fimm skrifstofur eru á svæðinu, í Moskvu, Minsk í Hvíta-Rússlandi, Kíev í Úkraínu, Almata í Kasakstan og Tbilisi í Georgíu. Á síðasta ári var heildarsala Actavis á þessum markaði um 68 milljónir evra.