Actavis hefur afhent Krabbameinsfélagi Íslands tíu milljónir króna. Gjöfin var afhent í húsi Krabbameinsfélagsins í dag, á 55 ára afmæli félagsins.

Svafa Grönfeldt, aðstoðarforstjóri Actavis, sagði við afhendinguna að stjórn fyrirtækisins hefði ákveðið að styrkja félagið á þessum tímamótum í viðurkenningarskyni fyrir áratuga starf í þágu baráttunnar gegn krabbameini að því er segir í tilkynningu Actavis.

Actavis keypti fyrir nokkru rúmenskt lyfjafyrirtæki sem er leiðandi í þróun og framleiðslu samheitakrabbameinslyfja í Evrópu og getur þannig lagt sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við krabbamein.

Guðrún Agnarsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins tók við gjöfinni og þakkaði fyrir þá miklu velvild sem Actavis sýndi félaginu. Guðrún sagði að gjöfin kæmi að sérstaklega góðum notum til að styrkja hin fjölmörgu verkefni félagsins segir í tilkynningu Actavis.