Bein fjármunaeign Íslendinga erlendis jókst um rúma 50 milljarða króna á síðasta ári og stóð í 1.208 milljörðum króna um síðustu áramót. Um 59% þeirra eigna eru í formi eiginfjár en 41% er í formi lána íslenskra félaga til erlendra dótturfélaga. Umfang slíkra lána jókst um 200 milljarða króna í fyrra. Mesti viðsnúningurinn er í eign innlendra aðila í Lúxemborg. Þar fer eign þeirra úr því að vera neikvæð um 370 milljarða króna (þ.e. að innlendir aðilar skulduðu 370 milljarða króna meira en þeir áttu þar) í að verða jákvæð um 246 milljarða króna. Það er viðsnúningur um 616 milljarða króna. Ástæða þessa viðsnúnings er að langmestu leyti vegna endurskipulagningar á skuldum eins fyrirtækis, Actavis.

Erlendir eiga meira á Íslandi

Björgólfur Thór Björgólfsson
Björgólfur Thór Björgólfsson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Endurskipulagningu Actavis lauk í lok júlí 2010. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum er þessi breyting tilkomin vegna þess að það sem áður var flokkað sem skuld í tölum hans er nú flokkuð sem eign íslensks aðila erlendis. Á sama tíma og endurskipulagning Actavis leiddi af sér auknar eignir íslenskra aðila erlendis, eða að minnsta kosti mun minni skuldir þeirra þar, þá jukust eignir erlendra aðila á Íslandi um 276 milljarða króna. Sú aukning er líka tilkomin vegna endurskipulagningar Actavis og gefur til kynna að einhverjir erlendir kröfuhafar fyrirtækisins hafi eignast hlut í því í endurskipulagningunni.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.