Actavis birtir uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða á morgun, segir greiningardeild Landsbankans.

?Rúmenska samheitalyfjafyrirtækið Sindan, sem Actavis festi kaup á í mars síðastliðinn kemur nú í fyrsta skipti inn í samstæðuuppgjörið. Afkomuspá okkar hljóðar upp á 32,4 milljóna evra (3 milljarðar króna) hagnað á fjórðungnum sem er nokkuð í línu við hagnað fyrsta ársfjórðungs sem nam 31,3 milljónir evra (2,87 milljarðar króna)," segir greiningardeildin.

Hún segir að Actavis hafi staðið í ströngu síðastliðið ár við fyrirtækjakaup en helst má nefna kaupin á Amide, Alpharma og nú síðast Sindan.

?Auk þess á fyrirtækið nú í samkeppni um kaup á króatíska samheitalyfjafyrirtækinu Pliva. Að mati Greiningardeildar hefur Actavis tekist vel upp við fyrirtækjakaup. Hins vegar er mikil samþætting að eiga sér stað á alþjóðlega samheitalyfjamarkaðnum þar sem sífellt færri álitleg fyrirtæki standa eftir og erfiðara verður að rökstyðja verðið og kreista fram ávinning af kaupum," segir greiningardeildin, sem segir ennfremur:

?Við bindum hins vegar miklar vonir við að kaupin á Pliva gangi eftir, þar sem töluverður ávinningur gæti orðið samfara kaupunum."