Verksmiðja Actavis Bulgaria, áður Balkanpharma, hefur fengið samþykki frá dönskum lyfjayfirvöldum til þess að selja lyf á mörkuðum Evrópusambandsins (ESB), segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Vladimir Afenliev.

Actavis Bulgaria, sem er í eigu íslenska lyfjafyrirtækisins Actavis, áætlar að fjárfesta fjórar milljónir evra í verksmiðjunni til þess að uppfylla skilyrði til útflutnings til ESB-landanna, segir Afenliev. Verksmiðjan er staðsett í Dupnitsa en félagið starfrækir einnig verksmiðjur í Razgrad og Troyan. Félagið fjárfesti tæplega 50 milljónir evra í verksmiðjunum þremur á árunum 2000-2004.

Actavis Bulgaria er með 3.500 starfsmenn í vinnu. Móðurfélagið Actavis er með um 7.000 starfsmenn í 28 löndum.