Aðalfundur Actavis, sem haldinn var miðvikudaginn fyrir páska, samþykkti að veita stjórn félagsins heimild til þess að leita tilboða frá þremur endurskoðunarfélögum, KPMG hf., Deloitte hf. og PricewaterhouseCoopers hf., um endurskoðun á samstæðu félagsins og taka því tilboði sem hagstæðast er að mati stjórnar. Það er KPMG sem hefur séð um endurskoðunina til þessa.

Eftir því sem næst verður komist er fátítt að félög í Kauphöllinni ákveði að bjóða út endurskoðun sína með þessum hætti. Á síðasta ári námu greiðslur til endurskoðenda 3,5 milljónum evra, eða um 315 milljónum króna, og höfðu greiðslurnar hækkað úr 1,3 milljón evra árið 2005.

Gera má ráð fyrir að endurskoðun félagsins kosti á milli 400 og 500 milljónir evra á næsta ári, þannig að hér er um að ræða verulega stórt verkefni á sviði endurskoðunar hér á landi, enda er félagið með framleiðslustarfsemi í 12 löndum og sölustarfsemi í enn fleiri löndum. Tekjur félagsins námu 1.379 milljónum evra (121 milljarði króna) á síðasta ári.

Að sögn Halldórs Kristmannssonar, talsmanns Actavis, var ákveðið að fara þessa leið til að leita allra leiða til að ná niður kostnaði. Hann benti á að það væru ekki margir sem réðu við endurskoðun af þessu tagi.