Afkoma Deutsche Bank í Þýskalandi dróst verulega saman á síðasta ársfjórðungi og olli uppgjör bankans vonbrigðum. Dapurt uppgjör skýrist ekki síst af niðurfærslu á eignasafni bankans. Þar á meðal eru lán til Actavis, spilavítis í Las Vegas í Bandaríkjunum og  grísk ríkisskuldabréf.

Skuld Actavis við Deutsche Bank er tilkomin vegna yfirtöku Novators, félags í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar á fyrirtækinu sumarið 2007. Yfirtakan, sem fólst í kaupum á 80% af hlutafé Actavis upp á sex milljarða evra. Af heildarlánsfjármögnuninni átti  Deutsche Bank um fjóra milljarða en Landsbankinn og Kaupþing um hundrað milljónir evra. Lán Deutsche Bank var á gjalddaga árið 2010. Bankinn tók Actavis svo yfir sama ár.

Hlutur Actavis er langstærstur á afskriftareikningi Deutsche Bank. Hann nemur 407 milljónum evra, jafnvirði 66 milljarða króna. Það er rúmlega þrisvar sinnum hærri upphæð en sá sem á eftir kemur og rúmur helmingur af tapi fyrirtækjalánadeildar bankans. Það nam í heildina 722 milljónum evra, jafnvirði tæpum 120 milljörðum íslenskra króna.

Afkoman undir væntingum

Tap Deutsche Bank, sem er umsvifamesti banki Þýskalands, tapaði 147 milljónum evra á fjórðungnum, sem er 76% samdráttur á milli ára og langt undir væntingum greiningaraðila. Hagnaður bankans á sama tíma í hittifyrra nam 601 milljónum evra. Meðalspá Bloomberg hljóðaði upp á 556 milljóna evra hagnað. Tekjur námu 6,9 milljörðum evra sem er 7% samdráttur á milil ára.

Josef Ackerman, forstjóri Deutsche Bank, sagði skuldakreppuna á evrusvæðinu valda því að viðskiptavinir bankans séu varasamir um þessar mundir. Það hafi bæst við afskriftir sem hafi dregið afkomuna niður. Ackerman hættir hjá bankanum í maí.