Í langtímaáætlun Actavis er gert ráð fyrir að félagið verði skráð á hlutabréfamarkað að nýju, en það var afskráð úr Kauphöll Íslands árið 2007 þegar félag Björgólfs Thors Björgólfssonar eignaðist ráðandi hlut.

Claudio Albrecht forstjóri félagsins segir að í dag sé Actavis þó ekki tilbúið til skráningar. Fyrst þurfi að samþætta fjölmargar rekstrareiningar samsteypunnar eftir mikinn vöxt á árunum 1999-2008. Aðspurður hvort litið sé til íslensku kauphallarinnar við skráningu segir Albrecht það ekki liggja fyrir, en tvíhliða skráning félagsins sé einn möguleiki.

Actavis er í dag fjórða stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims og er með starfsemi í rúmlega 40 ríkjum. Starfsmenn eru um tíu þúsund talsins, þar af um 700 á Íslandi. Sala á síðasta ári nam um 1,7 milljörðum evra, jafnvirði tæplega 280 milljarða króna miðað við núverandi gengi.

Á blaðamannafundi við vígsluathöfn höfuðstöðva Actavis í Zug í Sviss kom fram í máli Albrecht að nokkuð hraðar breytingar eigi sér stað í lyfjaframleiðslu heimsins í dag. Lífsaldur fari sífellt hækkandi og lyfjaþróun sé hröð. Samhliða formlegri opnun í Zug fundar framkvæmdastjórn félagsins um breytta framtíðarstefnu.