Íslenska samheitalyfjafyrirtækið Actavis á ekki í yfirtökuviðræðum við írska keppinautinn Pinewood Laboratories, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en blaðið greindi frá því á mánudaginn að breskir fjölmiðlar hefðu bendlað Actavis við hugsanleg kaup á írska fyrirtækinu.

Í frétt The Sunday Times sagði að Actavis væri einn af átta hugsanlegum kaupendum og að kaupverðið væri í kringum 120 milljónir evra, sem samsvarar 11,55 milljörðum.

Talið er að Barr Pharmaceuticals hafi einnig áhuga á því að kaupa Pinewood, segir í fréttinni. Stærsti samheitalyfjaframleiðandi heims, ísraelska fyrirækið Teva, hefur líka verið orðaður við Pinewood, ásamt þýska fyrirtækinu Stada og indverska fyrirtækinu Cadila Healthcare.

Actavis og Barr hafa undirritað viljayfirlýsingu um að gera formlegt kauptilboð í Pliva, sem talið er að verði selt á yfir 2,3 milljarða dollara, sem samsvarar rúmlega 173 milljörðum króna.

Sérfræðingar á samheitalyfjamarkaði búast nú við aukinni samþjöppun í greiranum. "Actavis á eftir að vera orðað við flest samheitalyfjafyrirtæki sem eru til sölu á næstunni," sagði einn viðmælandi Viðskiptablaðsins.